Vísindavaka er verkefni sem gengur út á að þið, nemendur, upplifið að vera vísindamenn. Í stuttu máli þá er það í ykkar höndum að velja eða búa til samanburðartilraun sem þið sýnið fyrir yngri áhorfendur á sjálfri Vísindavökunni. Þetta hljómar kannski einfalt en til að þið hafið eitthvað gagn og líka gaman af verkefninu þarf að fylgja þeim leiðbeiningum og verklagi sem er útskýrt hér að neðan og kennarinn fer líka betur yfir með ykkur.

Í verkefninu Vísindavöku hannið þið samanburðartilraun og lærið um breytur. Með því að safna gögnum og endurtaka tilraunir, þjálfist þið í að mæla og greina upplýsingar. Þó að ferill verkefnisins sé lærdómsríkur, lærið þið einnig mikið af því að sýna tilraunina ykkar á Vísindavökunni sjálfri. Nemendahóparnir undirbúa stutta munnlega kynningu, veggpspjald, sýna athugun sína á staðnum og svara spurningum áhorfenda.

Markmið verkefnis

 • Að nemendur æfi sig í að vinna eftir ferli vísinda (FV).
 • Að nemendur læri orðið „breyta“ og geti beitt því.
 • Að nemendur sýni sjálfstæð vinnubrögð.
 • Að nemendur geti útskýrt athugun á vísindalegan hátt fyrir öðrum.
 • Að nemendur þjálfist í að koma fram og kynna fyrir öðrum.

Vinnuferli Vísindavöku:

Hér er stutt lýsing á því hvaða skrefum þarf að fylgja frá upphafi til loka Vísindavökunnar. Áríðandi er að þið kynnið ykkur öll skrefin áður en þið byrjið að vinna í verkefninu.

1. Kynning á verkefninu og upphaf hópavinnu (kennslustundir 1 og 2)

Fyrst fer kennarinn nánar yfir það með ykkur hvað Vísindavaka er og útskýrir hugtakið „breyta”.

Verkefnið er hópverkefni og er æskilegt að 2 – 3 vinni saman. Kennari stýrir því hvernig valið skuli í hóp. Þegar búið er að mynda hópa ræða þeir saman um hugmyndir að tilraun en sjálfsagt er að leita fanga í bókum og á netinu til að hefjast handa. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvað það er sem hópurinn vill rannsaka. Þegar það hefur verið ákveðið, þarf að setja fram rannsóknarspurningu sem tekur á viðfangsefninu. Góð rannsóknarspurning er mælanleg, skýr, hægt er að svara henni, hún spyr um einhver tengsl, t.d. hvaða áhrif hefur þetta á hitt. Gott er að byrja á „Hvaða áhrif hefur.. “ eða „Hefur þetta áhrif á hitt?“.

Þið þurfið að upplýsa kennarann ykkar um rannsóknarspurninguna og fá grænt ljós á hana. Ekki láta hugfallast þó þið fáið ekki grænt ljós á fyrstu hugmyndina því kannski þarf bara að gera smávægilegar breytingar svo athugunin henti fyrir Vísindavöku. Þegar rannsóknarspurningin er fullmótuð þarf líka að gera sér grein fyrir hvaða breytu þið ætlið að kanna.

Þyngd verkefnisins ræðst af reynslu ykkar og aldri. Þeir sem eru lengra komnir hanna eigin tilraun og skipuleggja að auki alla vinnu sína og skipta með sér verkum. Hægt er að nota þennan verkefnaramma þegar fylgja á ferli vísinda og skipuleggja á vinnuna.

Í lok kennslu

Nemendur eru komnir í hópa og komnir með hugmynd að rannsóknarspurningu.

Fyrir næstu kennslustund

Útvega þarf efni og áhöld fyrir tilraunina ykkar. Mögulega getið þið fengið ákveðin efni í skólanum líkt og matarsóda og edik.

2. Vinna samkvæmt ferli vísinda (kennslustundir 3 og 4)

Í þessum tímum lærið þið um ferli vísinda sem eru vinnubrögð og aðferðir sem vísindafólk notar til að rannsaka og öðlast nýja þekkingu um lífið og tilveruna. Hvað sem vísindafólk er að kljást við, þá notar það ákveðnar aðferðir til að komast til botns í málinu. Áður fyrr var talað um vísindalega aðferð, en þar sem vísindafólk fylgir ekki einni ákveðinni aðferð er frekar talað um ferli vísinda í dag.  Í Vísindavökuverkefninu þurfið þið að fylgja ferli vísinda.

Verkefni ykkar er að búa til samanburðartilraun. Það þýðir að þið endurtakið tilraunina ykkar á sama hátt en kannið áhrif annarrar breytu.

Munið að það er afar mikilvægt að skrá niður allar niðurstöður jafnóðum. Þó eitthvað fari ekki eins og þið höfðuð gert ráð fyrir þá er það líka niðurstaða sem þið skráið hjá ykkur. Þannig er þetta einmitt hjá raunverulegum vísindamönnum, það gengur ekki alltaf allt upp eins og þeir hafa séð hlutina fyrir sér fyrirfram. Ekki gleyma því að við lærum oft mest á „mistökunum” og nýjar uppgötvanir hafa jafnvel verið gerðar fyrir tilviljun þegar eitthvað fór úrskeiðis í tilraun.

Gæta þarf fyllsta öryggis í allri vinnu á Vísindavöku. Lesið reglur um öryggi í tilraunum áður en þið hefjist handa.

Þegar þið eruð búin að framkvæma tilraunina og skrá hjá ykkur allar nauðsynlegar upplýsingar má ekki gleyma að ganga vel frá öllum efnum og áhöldum, enda þurfi þið að ganga að þeim vísum þegar þið eigið að sýna tilraunina á Vísindavökunni.

Í lok tímans

Hóparnir hafa gert tilgátu og safnað gögnum með tilraun, athugun, könnun eða einhverju slíku. Nemendur hafa skilgreint hvaða breytur þeir nota.

Fyrir næsta tíma

Nemendur velta fyrir sér niðurstöðum tilraunar. Hvað gerðist? Hver var breytan?

 

3. Miðlun upplýsinga (kennslustund 5 og 6)

Nú hafið þið framkvæmt tilraunina ykkar og prófað breytuna. En hvað var það sem þið komust raunverulega að? Nú þurfið þið að ræða niðurstöðurnar ykkar á milli og tengja þær við „fræðin”. Hvaða kenningar, kraftar og lögmál búa þarna að baki? Hvernig hafa (aðrir) vísindamenn skýrt út það sem þið voruð að sannreyna? Getið þið fundið vísindalega skýringu á því sem gerðist?

Til að miðla upplýsingum á Vísindavöku gerið þið veggspjald sem lýsir tilrauninni ykkar, ályktunum og niðurstöðum. Veggspjaldið verður til sýnis á Vísindavökusýningunni. Snyrtilegast er að hengja veggspjaldið framan á borðið sem þið sýnið á, t.d. með límbandi.

Á Vísindavöku sýnið þið áhorfendum tilraunina ykkar. Þið þurfið því að undirbúa og æfa munnlegu kynninguna. Gott er að skrifa kynninguna á litla miða (frekar en stórt blað). Mikilvægt er að allir í hópnum taki þátt í kynningunni og því er nauðsynlegt að skipta kynningunni á milli.

Veggspjald

 1. Grípandi titill
 2. Tilgangur/rannsóknarspurning
 3. Tilgáta
 4. Tæki og efni
 5. Örstutt lýsing
 6. Niðurstaða

Munnleg kynning

 1. Kynna sig
 2. Segja frá tilgangnum
 3. Segja frá tilgátunni ykkar (mögulega hægt að spyrja áhorfendur um hvað þeir haldi að gerist).
 4. Framkvæma.
 5. Segja frá niðurstöðum.
 6. Svara spurningum.

Gott er að hafa allar staðreyndir á hreinu svo þið getið svarað spurningum áhorfenda.

Í lok tímans

Gögn sem safnað var hafa verið greind og tengd vísindalegum skýringum. Rannsóknarspurningu hefur verið svarað og hópurinn er byrjaður á veggspjaldi og munnlegri kynningu.

Fyrir næsta tíma

Ljúka við veggspjald og æfa munnlega kynningu.

4. Vísindavaka (kennslustund 7 og 8)

Lokaskrefið hefst á því að þið undirbúið ykkar sýningu sjálf. Ef það á eftir að raða upp borðum og stólum hjálpist þið að við það. Þið finnið svo til áhöldin ykkar og efnin, festið veggspjaldið framan á borðið, andið djúpt og verðið tilbúin að taka á móti áhorfendum með bros á vör og vinalegu viðmóti. Þegar kemur að ykkur að sýna ykkar framlag passið þið að framkvæma tilraunina rólega og af öryggi og útskýrið jafnóðum hvað þið eruð að gera hátt og skýrt svo allir heyri vel og missi ekki af neinu. Þegar þið hafið lokið við að framkvæma tilraunina bjóðið þið áhorfendum að koma með spurningar. Ekki verða taugaóstyrk þó þið getið ekki svarað flóknum spurningum, kannski getur kennarinn eða einhver annar í hópnum aðstoðað ykkur en ef ekki er alltaf best að viðurkenna alveg hreinskilnislega að þið kunnið ekki svar við því.

Í lok tímans.

Þegar allir hóparnir hafa sýnt sína tilraun og áhorfendur hafa yfirgefið stofuna er komið því mikilvæga verkefni að ganga frá en þar á hver og einn að leggja sig fram. Það er sameiginleg ábyrgð alls bekkjarins að koma kennslustofunni í samt lag eftir Vísindavökuna. Áhorfendur hafa mjög gaman af því að koma í heimsókn á Vísindavöku og nemendur sem taka þátt draga mikinn lærdóm af.