Ferli vísinda eru þau vinnubrögð og aðferðir sem vísindafólk notar til að rannsaka og öðlast nýja þekkingu um lífið og tilveruna. Hvað sem vísindafólk er að kljást við, þá notar það ákveðnar aðferðir til að komast til botns í málinu. Áður fyrr var talað um vísindalega aðferð, en þar sem vísindafólk fylgir ekki einni ákveðinni aðferð er frekar talað um ferli vísinda í dag.  

Í upphafi þarf að ákveða hvað skal skoða. Án spurningar er ekki hægt að leita að svari!

Þegar okkur langar að kanna ótroðnar slóðir eða læra eitthvað nýtt þá er ágætt að byrja á því að búa til rannsóknarspurningu eins og „Hvað henda nemendur 7. bekkjar mörgum kílóum af mat í ruslið í hádeginu?“ eða „Hefur gostegund áhrif á hversu hátt gos og mentos gýs?“  eða „Er hægt að halda uppblásinni blöðru yfir kertaloga, án þess að hún springi?“, „Hvernig getum við læknað Ebólu?“  eða ,,Hvað gerist ef þú borðar óvart hluta af spöngunum þínum?”. Rannsóknarspurning þarf að vera gerð á þann hátt að hægt sé að svara henni með einhverskonar mælingum. Það þarf sem sagt að vera hægt að svara henni.

Eftir að við höfum búið til spurningu sem við viljum kanna nánar, þá er komið að því að velta því fyrir okkur, hvað við vitum um viðfangsefnið og giska á hvert sé svarið við spurningunni okkar. Þetta heitir tilgáta.  Eftir að við höfum gert tilgátu er svo komið að gagnasöfnun eða athugun. Hægt er að safna upplýsingum með því að mæla eitthvað, safna svörum, upplýsingum og beinum tilraunum. T.d. með því að mæla massa matarafganga, prófa sykurgos og mentos og síðan sykurlaust gos og mentos og mæla hæð gosbununnar, eða að prófa að setja uppblásna blöðru yfir kertaloga, og jafnvel uppblásnablöðru með smá vatni í yfir kertaloga.
Það er mikilvægt að þið séuð meðvituð um hvaða breytu þið eruð að kanna í athuguninni,  svo að við vitum nákvæmlega hvað olli breytingunni. Með því að endurtaka svo tilraunina er hægt að sjá hvað hefur virkilega áhrif. Í lokin veltum við fyrir okkur því sem gerðist, hverju getur það tengst, af hverju gerðist það?

Mikilvægt er að við séum meðvituð um hvað við erum að kanna og af hverju.  

Ferli vísinda er hægt að fylgja í eftirfarandi skrefum.

Tilgangur

Í upphafi veltum við viðfangsefninu fyrir okkur – Hvað erum við að kanna, hvað langar okkur að skoða? Af hverju erum við að gera þetta? Hvert er vandamálið? Hver er rannsóknarspurningin okkar? Er hægt að svara þessari spurningu? Athugið að kanna aðeins eina breytu í hverri tilraun.

Tilgáta og hugmyndir

Áður en þið hefjist handa við tilraunina skulið þið velta fyrir ykkur hvert svarið við rannsóknarspurningunni ykkar er. Hver er líkleg lausn eða svar við spurningu ykkar? Hvaða hugmyndir höfum við um rannsóknarefnið? Hvað haldið þið að gerist? Hvert er líklegasta svarið við rannsóknarspurningunni?

Athugun, könnun eða gagnasöfnun

Gagnasöfnun getur farið fram með beinum tilraunum, nákvæmum mælingum og heimildakönnun. Við framkvæmd tilraunina skal gæta fyllstu nákvæmni í öllum vinnubrögðum og mælingum. Skráið hjá ykkur allar upplýsingar.

Greining og úrvinnsla

Mælingar eða gögn eru borin saman við aðrar sambærilegar mælingar og í kjölfarið er hægt að draga ályktanir um viðfangsefnið. Hvað gerðist í tilrauninni? Skráið það sem gerist og allar nauðsynlegar upplýsingar.

Ályktanir og niðurstöður

Að lokum skal draga saman helstu niðurstöður. Veltið fyrir ykkur hvað gerðist? Hver er niðurstaðan? Hvert er svarið við rannsóknarspurningunni? Var tilgátan rétt? Fór eitthvað úrskeiðis? Væri hægt að rannsaka viðfangsefnið frekar? Hvaða spurningar vakna við gerð rannsóknarinnar? Hverjum þeirra viljum við svara? Væri hægt að gera framhaldstilraun?

Miðlun upplýsinga

Hvernig kynnum við niðurstöður okkar? Hverjum segjum við frá? Hvernig segjum við frá? Skrifum við grein? Segjum við félögum frá? Gerum við myndband?  Vísindafólk rannsakar og deilir vinnu sinni með öðrum. Með því að miðla upplýsingum byggjum við upp þekkingu sem er grundvöllur vísindasamfélags.

Með því að fylgja ferli vísindanna öðlumst við innsýn í hug vísindafólks og getum þannig gert okkur grein fyrir því hversu ótrúlega spennandi, krefjandi og áhugaverð vísindin eru. Þau útheimta vissulega þolinmæði og þrautseigju, en með réttu aðferðunum getur eitthvað ótrúlegt gerst.