Daglegt líf er stútfullt af alls kyns misskilningi.

Sumir segja t.d. að ef maður rúlli niður brekku fái maður garnaflækju – á meðan staðreyndin er sú að ef við gerum það fáum við oftast ekkert annað en grasgrænu í fötin okkar. Vísindin segja okkur að garnaflækja stafi af innri þáttum í meltingarveginum – ekki snúning á líkamanum sjálfum.

Aðrir segja að þegar maður borði ís of hratt frjósi heilinn manns í smá stund. Vísindin hafa kennt okkur að það sé ekki alveg rétt. Heilinn frýs auðvitað ekki – þá væri örugglega bannað með lögum að borða ís. Þegar við borðum ís of hratt nema taugaendar í gómnum svakalegan kulda, senda ótalmörg skilaboð um að víkka slagæðar á ákveðnum stöðum í höfðinu og þá fáum við höfuðverk í smá stund. Þetta kenndu vísindin okkur.

„Sá þáttur sem látið er reyna á í tilraun kallast breyta. í hverri tilraun þarf að vera ljóst hvaða breytu er verið að kanna. Annars væri ekki skýrt hvaða breyta hefði áhrif á niðurstöður tilraunarinnar.“¹

En hvernig getur fólk haldið fram hlutum og verið viss um að þau hafi rétt fyrir sér? Jú, með því að gera tilraunir.

Þegar við gerum tilraunir erum við að skoða hluti eða heiminn í kringum okkur. Við búum til rannsóknarspurningu sem við ætlum að svara með tilrauninni. Tilraunir geta verið margskonar og við skoðum á vísindalegan hátt hvað hefur áhrif og hvað veldur breytingum í tilraunum. Til þess að tilraunir og athuganir séu áreiðanlegar þurfa mælingar að vera mjög nákvæmar.

Dæmi um samaburðartilraun og breytur.

 Kökur bakast við ákveðið hitastig, sumar kökur “lyfta” sér því að í deiginu er ákveðið lyftiefni. Efnið myndar gastegund þegar það kemst í snertingu við önnur efni í deiginu og hitnar.

Rannsóknarspurning: Hversu mikið lyftiefni er æskilegt að nota í bollakökur?

Til þess að svara þessu, þurfum við að gera samanburðartilraun, en þá framkvæmum við tilraun, endurtökum hana með aðeins einni breytingu.

Tilgáta: Til að bollakökur fái góða lyftingu er gott að nota mjög mikið af lyftidufti sem lyftir kökunum mikið.

Þegar við tökum kökurnar úr ofninum sjáum við að það er mikill munur!

Það er greinilegt að of mikið lyftiefni er ekki gott, því þá fellur kakan! í þessum  tilraunum breytum við aðeins magni lyftidufts.

Þegar við gerum tilraunir er mikilvægt að gæta nákvæmni þannig að það séu ekki margir hlutir að hafa áhrif á tilraunina. Til dæmis þurftum við að gæta þess að hafa alla hluti eins í tilraununum, nema lyftiduftsmagnið. Ef við hefðum líka breytt t.d. hitastigi eða hveitimagni, þá myndum við ekki vita hvað hefði áhrif á lyftingu bollakakanna. Breytan í þessari tilraun er því magn lyftidufts.

Dæmi um samanburðartilraun og breytur

Á Íslandi er hægt að rækta salat utandyra á sumrin. En til að það vaxi þarf dagsbirtu, koltvíoxíð og vökvun. En hvaða vökvi haldið þið að reynist best til að salatið vaxi vel?

Tilraun 1 

Kolsýrt vatn

Tilraun 2

Orkudrykkur

Tilraun 3

Kranavatn?

Við veljum sambærilegar salatplöntur í þessar tilraunir og notum sama magn af hverjum vökva.

Eftir 5 daga sjáum við að orkudrykkurinn hefur verið full orkumikill fyrir plöntuna.

Í þessari tilraun könnuðum við hvaða áhrif gerð vökva hafði á salatplöntuna. Mikilvægt er að allar aðrar aðstæður voru eins, til dæmis að þær væru á sama stað, með jafn mikla dagsbirtu, við sama hitastig og fengju jafnmikið magn af vökva því annars myndum við ekki vita hvað hefði áhrif. Breytan var því hvaða gerð vökva var notuð til vökvunar.

Kók og mentos:

Kók og mentos er ótrúlega skemmtileg og vinsæl tilraun. Við vitum að mentosið leysir koltvíoxíð í gosinu úr læðingi. EN getur verið að gostegundin hafi áhrif á hversu hressilega gýs úr flöskunum? Einnig er hægt að gera tilraun þar sem gosið er ávallt það sama, en breytan er gerð mentos. Hægt er að nota myntu mentos eða ávaxta og kanna hvort að gosið gjósi hærra hjá ólíkum gerðum. 

Heimild

¹Dean Hurd. (1997). Einkenni Lífvera. Námsgagnastofnun, Reykjavík.