Nemendahópar velja sér eina tilraun sem þeir gera að sinni eða hanna nýja samanburðartilraun.

Hópurinn fylgir ferli vísinda og miðlar upplýsingum til áhorfenda á Vísindavöku.

Námsgrein 

Náttúrufræði, tækni, nýsköpun, uppgötvunarnám, íslenska.

Viðfangsefni

Ferli vísinda, læsi á náttúruvísindi, munnleg kynning.

Tími

Vísindavaka fer fram í átta til tíu 40 mínútna kennslustundum. Síðasti tíminn er hin eiginlega Vísindavaka og þarf sá tími að vera 80 mínútur sem skiptist svo:
20 mínútur uppsetning, 40 mínútur Vísindavaka, 20 mínútur frágangur.

Aldur

Verkefnið er ætlað nememendum í 6. bekk til 10. bekkjar. Verkefnið er þess eðlis að hægt er að endurtaka það árlega. Nemendur þjálfast í vinnubrögðum og taka fyrir flóknari viðfangsefni eftir því sem þeir verða eldri. Miðað er við að yngri nemendur, t.d. í 6.-7. bekk velji sér tilraun sem til er, en breyti henni í samanburðartilraun, geri sjálfir rannsóknarspurningu og  kanni áhrif mismunandi breyta í athugun sinni. Nemendur sem eru lengra komnir hanna eigin rannsóknarspurningu og eigin samanburðartilraun.

Fyrirkomulag

Hópaverkefni með 2-3 nemendum í hóp. Kennari eða nemendur velja samstarfsfélaga.

Markmið

Að nemendur æfi sig í að vinna eftir ferli vísinda (FV).
Að nemendur læri orðið „breyta“ og geti beitt því.
Að nemendur sýni sjálfstæð vinnubrögð
Að nemendur geti útskýrt athugun á vísindalegan hátt fyrir öðrum.
Að nemendur þjálfist í að koma fram og kynna fyrir öðrum

Námsefni

Kennslumyndbönd og verkefni á http://visindavaka.natturutorg.is/

Vísindavaka Verkefnarammi

Verkefnarammi nemenda Word skjal.

Gögn

Skólar eru misvel útbúnir og fer það eftir aðstæðum á hverjum stað hvaða gögn eru aðgengileg nemendum. Mælt er með því að hver hópur hafi einn bakka eða fjölnotapoka til umráða á meðan verkefni stendur svo aðrir hópar fari ekki í verkefnið þeirra.

Gott er að setja það í hendur nemenda að útvega sérstaka hluti og efni í tilraunir en bjóða upp á staðlaða hluti fyrir alla, svo sem matarsóda, edik, blöðrur, mæliglös, uppþvottalög, matarlit og slíkt.

Ef nemendur vilja nota þurrís, mjólk eða eitthvað slíkt, getur skólinn sett það í hendur nemenda að útvega efnin. Í raun fer það eftir aðstæðum hjá hverjum skóla hversu mikið af efnum eru aðgengileg í verkefninu.

Öryggi

Mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis.
Nota þarf öryggisgleraugu ef unnið er með ertandi efni líkt og edik. Tilvalið er að eiga safn af flugeldagleraugum eða annarskonar öryggisgleraugum í skólanum sem hægt er að grípa til.
Kennari metur hjá hverjum og einum hópi hvort að nemendur hafi aðgang að efnum sem gætu verið varasöm. Miðað er við að aðeins eldri nemendur meðhöndli eld.
Ef unnið er með eld og varasöm efni þarf að gæta þess að loftgæði í stofunni séu góð. Ef vafi leikur á því þarf að framkvæma tilraunina utandyra.
Gæta þarf þess að hafa slökkvitæki við höndina í verkefnavinnunni og á Vísindavökunni sjálfri.
Sjá nánar um öryggi.

Kennsluaðferð

Í verkefninu Vísindavöku er unnið eftir grunnhugmyndum leitarnáms (inquiry based learning) sem er kennsluaðferð sem leitast við að fylgja ferli vísinda með því að spyrja spurninga, afla upplýsinga, greina þær og gera þeim skil. Sjá nánar hér. Verkefnið Vísindavaka er dæmi um hálfstýrt leitarnám, þar sem viðfangsefni nemenda á að vera vísindalegs eðlis og samanburðartilraun en nemendur velja sér bæði rannsóknarspurningu og á hvaða hátt gögnum er safnað. Nemendur fylgja ferli vísinda (grunnreglum vísindalegrar aðferðar) í vinnunni.

Skipulag Vísindavöku

Þegar skipuleggja á Vísindavöku þarf að ákveða hentugan tíma fyrir verkefnið. Gott er að vinna verkefnið þegar lítið annað er um að vera í skólanum, og lítið um uppbrot, því að hver kennslustund er dýrmæt. Því er hentugt að setja verkefnið á dagskrá t.d. í upphafi annar, hvort sem er að hausti eða vori, eða að loknu skólafríi, svo sem páskafríi. Með því móti eru minni líkur á því að miklar annir séu í öðrum greinum, svo og að yngri nemendur séu á staðnum til að koma á Vísindavöku sem áhorfendur.

Hver og einn kennari stýrir hversu marga tíma hann eða hún tekur í verkefnið en mælt er með 8-10 4o mínútna kennslustundum. Nemendur fá yfirlit um viðfangsefni tímanna en fá sjálfir verkefnaramma, sem þeir fylla út og áætlun sem þeir gera sjálfir fyrir tímabilið. Þessi hluti verkefnisins gæti verið heldur strembinn fyrir yngri nemendur og því ákjósanlegt að kennari geri áætlun með þeim.

Eldri nemendur valda því vel að skipuleggja verkefnið sitt og sinn eigin tíma en eins og með annað þá skapar æfingin meistarann.

Þegar tímasetningar Vísindavöku eru ljósar er um að gera að auglýsa á upplýsingatöflu starfsfólks og hvetja fólk til að skrá sína bekki á Vísindavöku.

Tímaskipulag


Vísindavaka – Kynning og kveikja (2x40mín)

Hvað er gert?

Kveikja og kynning á verkefni
Hvað er Vísindavaka? Kennslumyndband
Hvað er „breyta“? Kennslumyndband
Kennari getur sýnt sýnitilraun með tveimur eða fleiri breytum.
Hvað er rannsóknarspurning?

Nemendum skipt í hópa. 2-3 nemendur í hóp. Kennari eða nemendur velja í hópa.
Nemendur byrja að hugsa um viðfangsefni.

Hægt er að skoða tilraunir í bókum og á neti. Sjá t.d. hér.

Í lok tímans

Nemendur eiga að vera byrjaðir að hugsa um hvernig/ hvaða tilraun þeir vilja gera.
Skilgreina rannsóknarspurningu og bera undir kennara.
Vera búin að ákveða fyrir næsta tíma og koma með allt í tilraunina.


Vinna skv. ferli vísinda (2-3×40 mín)

Hvað er gert?

Hvernig er ferli vísinda? Kennslumyndband
Nemendur skilgreina tilganginn, gera rannsóknarspurningu, velja breyturnar. Hver er tilgátan? Prófa að framkvæma tilraun. Endurtaka. Greina upplýsingar og álykta um niðurstöður.
Vinna eftir ferli vísinda.

Í lok tímans

Nemendur hafa fylgt ferli vísinda og skráð hjá sér upplýsingar um tilraun.
Frágangur.


Miðlun uplýsinga (2×40 mín)

Hvað er gert?

Umræður um tilraun og tenging við fræðin. Nemendur gera veggspjald til að hengja upp á borðið sitt á Vísindavöku og æfa munnlega kynningu. Tilvalið er að nota venjuleg A3 blöð í veggspjöldin.

Veggspjald

  1. Grípandi titill
  2. Tilgangur/rannsóknarspurning
  3. Tilgáta
  4. Tæki og efni
  5. Örstutt lýsing
  6. Niðurstaða

Munnleg kynning

  1. Kynna sig
  2. Segja frá tilgangnum
  3. Segja frá tilgátunni ykkar (mögulega hægt að spyrja áhorfendur um hvað þeir haldi að gerist).
  4. Framkvæma.
  5. Segja frá niðurstöðum.
  6. Svara spurningum.

Í lok tímans

Veggspjald tilbúið.
Frágangur.


Vísindavaka (2×40 mínútur)

Hvað er gert

Undirbúningur, sýning og frágangur.
Nemendur sjá um uppsetningu. Borðum raðað í hring í stofunni og áhorfendur setjast í miðju (þeir geta snúið sér eftir því hvert er horft). Veggspjöld hengd með límbandi á brún borðs. Nemendur kynna áhorfendum rannsóknarspurningu sína og framkvæma athugun á staðnum. Að því loknu svara nemendur spurningum áhorfenda.

Í lok tímans

Að loknum frágangi nemenda er Vísindavöku farsællega lokið!


Námsmat

Sjá nánar hér.